Takk Íslendingar
Undanfarið hefur ný auglýsing Mænuskaðastofnunar Íslands „ Ákallið til veraldarinnar um að lækna þá lömuðu“ verið sýnd á RUV og á samfélagsmiðlum og á Íslandi einu hefur verið horft á hana yfir milljón sinnum á samfélagsmiðlunum. Ég vil þakka Íslendingum fyrir að hafa styrkt gerð þessarar fallegu auglýsingar og fyrir alla þá hjálp sem þeir hafa veitt mér og Mænuskaðastofnun í gegnum árin. Þó að ég leiði mænuskaðaverkefnið lít ég svo á að það sé verkefni allra Íslendinga því tugir þúsunda þeirra, ef ekki fleiri, hafa lagt hönd á plóg á margvíslegan hátt.
Með því að moka stöðugt með litlu teskeiðinni árum saman hefur Mænuskaðastofnun tekist að fá margt fólk til að leiða hugann að því að finna þurfi lækningu við mænuskaða/lömun. Þannig tókst að fá Norðurlandaráð til að flokka mænuskaða sem eitt af forgangsmálum sínum og fé sett í samskráningu á honum á Norðurlöndum. Orðin „mein í taugakerfinu“ komust inn í stefnuskrá Sameinuðu þjóðanna um það sem tekið skyldi á til framtíðar og allt taugakerfið komst inn í átak Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO í þágu flogaveiki og annarra meina í taugakerfinu sem stendur yfir til ársins 2031. Auk þessa þyrftum við að hafa í gegn hjá WHO að stofnunin ráði heimsfræga persónu sem góðgerðarsendiherra taugakerfisins. Hlutverk sendiherrans væri að vekja athygli á áratugi WHO í þágu taugakerfisins og hvetja stjórnvöld þjóða, fjármálaöfl, gervigreindarsérfræðinga, vísindamenn, lækna, almenning og ekki síst fjölmiðla til dáða fyrir taugakerfið. Það væri stórkostlegt ef David Beckham gæfi kost á sér til slíks.
Næsta mál á dagskrá hjá Mænuskaðastofnun er að láta markaðssetja auglýsinguna Ákallið til veraldarinnar á samfélagsmiðlum í Bandaríkjunum. Vegna þess er nú hringt út fyrir félagið og fólk beðið um að styrkja um 4.900 krónur í eitt skipti. Ég bið þá sem ráð hafa á að bregðast vel við sem endranær.
Með stöðugum áróðri og hvatningu á réttum stöðum vonast ég til að á endanum stöndum við Íslendingar uppi sem þjóð sem lagt hefur sitt af mörkum til að hægt verði að lækna þá lömuðu. Það eru nefnilega ekki bara vísindin sem finna lækningu þó þau gangi að sjálfsögðu í fararbroddi og mikið mæði á þeim. Það gerum við öll saman.