Stofnun Gagnabanka um mænuskaða
Heilbrigðisráðherra undirritaði, í dag, samning við Auði Guðjónsdóttur, hjúkrunarfræðing, um stofnun alþjóðlegs gagnabanka um mænuskaða. Auður Guðjónsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur, kom að þessu máli eftir að dóttir hennar, Hrafnhildur Thoroddsen lamaðist fyrir neðan mitti, eftir umferðarslys, árið 1989. Vinkona Hrafnhildar, sem var með henni í bílnum, lét lífið. Auður hóf leit um allan heim að einhverjum sem gæti hjálpað dóttur hennar. Sú leit bar þann árangur að kínverskur læknir kom hingað til lands, og hefur gert tvær aðgerðir á Hrafnhildi. Hrafnhildur fékk við það mikla hreyfigetu, hefur síðan lokið stúdentsprófi, tekið bílpróf og er komin út á vinnumarkaðinn. Auður fékk þá þá hugmynd að stofna alþjóðlegan gagnabanka fyrir mænuskaða. Hún segir markmiðið vera það að kanna á hvaða stigi meðferð á mænuskaða sé í veröldinni í dag. Síðan sé ætlunin að halda fund hér á Íslandi með helstu sérfræðingum á sviðinu í heiminum. Þar verði upplýsingarnar kynntar og skoðað hvernig megi nýta þær mænusköðuðu fólki til framdráttar. Árið 2001 var haldin alþjóðleg ráðstefna um mænuskaða hér á landi. Í kjölfarið fór málið til Evrópuráðsins og Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar og fékk mikinn stuðning á báðum stöðum. Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, stýrði þá Alþjóða heilbrigðisstofnuninni og var mjög hlynnt því að Ísland hefði forgöngu um stofnun gagnabanka, þar sem hægt væri að sækja allar nýjustu upplýsingar um um mismunandi meðferðir við lækningu á mænuskaða. Og í dag var undirritaður samningur þar um, milli Auðar og Heilbrigðisráðuneytisins. Jón Kristjánsson segir mjög ánægjulegt að málið sé komið í farveg. Það hafi haft aðdraganda, enda sé málið stórt, en það sé nú sem fyrr segir komið í góðan farveg.