Institue of Spinal Cord Injury Iceland

View Original

Til vina taugakerfisins

Auður Guðjónsdóttir skrifar 6. október 2016 07:00

Á því ári sem liðið er frá því stjórnvöld og 26 þúsund aðrir Íslendingar náðu inn í stefnuyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna ákvæði um að þjóðir heims skuli vinna að því að bæta meðferðir við skemmdum í taugakerfinu hefur ýmislegt verið gert til að fylgja málinu eftir. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vakti athygli á starfi Íslands í þágu taugakerfisins á Alþjóðaheilbrigðisþinginu í Genf og hefur lagt til við Norrænu ráðherranefndina að Norðurlöndin setji sameiginlega á fót rannsóknarsetur fyrir mænuskaða. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir alþingismaður hefur vakið athygli norrænna sósíaldemókrata á verkefninu sem leitt hefur til að sósíaldemókratar hafa lagt fram tímamótatillögu í þágu taugakerfisins sem tekin verður til umfjöllunar á Norðurlandaþinginu í nóvember næstkomandi. Tillöguna má lesa hér: https://www.norden.org/da/nordisk-raad/sager-og-dokumenter/a-1683-velfaerd/

Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur leitað eftir því við Norrænu ráðherranefndina að nefndin taki upp ofangreint ákvæði úr stefnuyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og geri Norðurlöndin að leiðandi afli á sviði taugakerfisins. Taki frændur okkar á Norðurlandaþingi vel í málaleitan ráðamanna okkar og samþykki að láta greina stóru norrænu rannsóknarmynd taugakerfisins og samkeyra upplýsingarnar gæti það orðið fyrsti vísir að alþjóðlegu átaki til aukins skilnings á hvernig taugakerfið starfar.

Eins og flestir vita gengur afar hægt að finna lækningu í taugakerfinu svo sem við heila- og mænuskaða, geðsjúkdómum, Alzheimer, Parkinsonveiki, flogaveiki, MS, MND og fleiru. Helsta ástæðan er sú að taugakerfið er flókið og læknavísindin hafa ekki fullan skilning á hvernig það starfar. Þess vegna þarf vísindasvið taugakerfisins nauðsynlega á pólitískri aðstoð að halda frá alþjóðasamfélaginu. Við Íslendingar lögðum á brattann með taugakerfið hjá Sameinuðu þjóðunum til að skapa grundvöll fyrir alþjóðlegt átak til aukins skilnings á því. Við komumst á rekspöl og leitum nú eftir við hin norrænu ríkin að þau standi með okkur. Greinarhöfundur biður þá íslensku alþingismenn sem sitja munu þing Norðurlandaráðs í nóvember að tala hátt og snjallt máli taugakerfisins á þinginu. Með því gæta þeir ekki einungis hagsmuna Íslands heldur allrar heimsbyggðarinnar.